Tölvusneiðmyndtæki

Upplýsingar fyrir einstaklinga á leið í rannsókn.

Tölvusneiðmyndun byggir á röntgengeislun sem er send í gegnum líkamann frá mörgum sneiðhornum. Geislunin deyfist mismikið í gegnum vefi í hlutfalli við þéttni þeirra. Hver mynd sem tekin er með tölvusneiðmyndun sýnir líffæri, bein og annan líkamsvef í þunnri „sneið“ af líkamanum. Oftast eru teknar tugir eða hundruðir sneiða af líkamanum í hverri rannsókn. Á meðal algengra rannsókna er TS af heila, TS af líffærum í kviðarholi s.s. af lifur, gallkerfi, brisi, nýrum og þvagfærakerfi.  Algengar rannsóknir af líffærum í brjóstholi eru á hjarta og kransæðum auk rannsókna á lungum. Rannsóknir á æðakerfi eru einnig algengar með TS tæki okkar t.d. af hálsæðum, ósæð og æðum í heila og útlimum auk kransæða hjartans.

Myndir sem teknar erumeð TS af hjarta og kransæðum eru metnar af hjartalækni með áratuga reynslu í myndgreiningu hjarta með tölvusneiðmyndum. Sömu myndir eru einnig metnar af röntgenlækni m..t.t. vefs í myndsviði hjartans, t.d. lungna.  Rannsóknartími getur verið frá 10 til 20 mínútum. Algengur tími er um 15 mínútur.

Tölvusneiðmyndtæki í notkun
Í sumum rannsóknum þarf að gefa skuggaefni í æð í handlegg eða hendi.

Undirbúningur fyrir rannsókn

Flestar rannsóknir með tölvusneiðmyndun krefjast ekki sérstaks undirbúnings. Fyrir einstakar rannsóknir t.d. á kviðarholi og hjarta verður þú í vissum tilfellum beðin um að fasta í u.þ.b. 4 klst og mæta klukkutíma fyrir rannsóknina sjálfa. Upplýsingar um undirbúning fyrir rannsóknir ef einhver er, eru ávallt gefnar við tímagjöf í rannsókn.

Ekki er æskilegt að þungaðar konur fari í tölvusneiðmyndir vegna röntgengeislunar. Mikilvægt er að láta geislafræðing vita ef grunur er um þungun, áður en rannsókn fer fram. Við tölvusneiðmyndir eins og allar röntgenmyndatöku er ávallt farið eftir ströngum reglum um geislavarnir einstaklinga og aðeins starfsmenn með sérstaka menntun, venjulega geislafræðingar, hafa leyfi til að framkvæma rannsóknina. Ef þú hefur einhverjar spurningar varðandi geislavarnir þá eru geislafræðingar okkar alltaf tilbúnir að svara þeim.

 

Tæknilegar upplýsingar

Tvíorku (dual source) tölvusneiðmyndun

Tölvusneiðmyndatæki Myndgreiningar Hjartaverndar er af gerðinni Siemens Somatom Force. Um er að ræða flaggskip Siemens í tölvusneiðmyndum. Tækið er fyrsta og eina tvíorku tölvusneiðmyndatæki á Íslandi. Tækið er útbúið tveimur röntgengeislagjöfum (röntgenrörum) í stað eins sem snúast í kringum sjúklinginn. Helsti kostur tvíorkutækja umfram hefðbundnari einorkutæki er möguleikinn á að meta dofnunargildi vefja út frá tveimur mismunandi orkugildum frekar en einu. Þar sem vefir líffæra hafa mismundandi dofnunargildi eftir þéttni þeirra má betur greina samsetningu vefja með tvíorkutækjum.

Þetta tæki er hraðvirkasta tölvusneiðmyndatækið á markaðinum sem kemur sér sérstaklega vel í rannsóknum á hjarta og kransæðum. Hvort rör fyrir sig getur snúist einn hring á aðeins fjórðungi úr sekúndu (250 msek) og hægt er að taka sneiðmyndir á aðeins 66 msek. Tækið er 384 sneiða og getur tekið sneiðmyndir af 737 mm löngu svæði á einni sekúndu sem gerir kleift að mynda bæði kvið og brjóstkassa á einni sekúndu.

 

Siemens Somatom Force

Tækið er búið tveimur 120 kW aflgjöfum (samtals 240 kW). Þetta mikla afl getur komið í veg fyrir að lengja þurfi myndatökutíma á t.d hjarta í stórum og þungum einstaklingum til að viðhalda myndgæðum. Aflið gerir einnig mögulegt að taka myndir með lægra spennustigi (kV) sem eykur myndarkontrast (kontrast/myndsuð hlutfall). Hámarks líkamsþyngt fyrir rannsóknarbekk tækisins er 307 kg.

Fyrir utan aukin hraða í myndatökum gera tvö röntgenrör og mikið afl einnig kleift að taka sömu mynd með tveimur orkugildum sem hefur fjölda möguleika í för með sér, m.a. lægri geislaskammta, mun minna skuggaefni, minni myndgalla frá málmígræðslum auk möguleika til greiningar á samsetningu vefs, t.d. aðgreiningu fitusamsettra æðaskella frá hættuminni kalksamsettum æðaskellum.

Staðsetning Hjartaverndar

Staðsetning

Holtasmári 1 201 Kópavogur, Ísland Kt: 591017-0980

Skoða á korti

Hafa samband við hjartavernd

Hafa samband

Opnunartímar hjartaverndar

Opnunartímar

  • Mán - Fös: 08:00 - 16:00
  • Helgar: Lokað
Holtasmári 1, 201 Kópavogur, Ísland
Ritarar: 535-1876, Röntgen- & hjartalæknar: 535-1879
Opnunartími í dag: 08:00 - 16:00
Fara efst á síðu