Ný rannsókn sýnir aukið blóðflæði í heila einstaklinga með gáttatif eftir rafvendingu.
30. December 2019Rannsóknin sem fór fram á Landspítala og á myndgreiningu Hjartaverndar, náði til 44 einstaklinga með gáttatif. Þeir voru myndaðir með segulómun bæði fyrir og eftir rafvendingu þar sem reynt var að koma hjartslætti þeirra í reglulegan takt aftur. Amk 10 vikur liðu á milli myndataka með segulómun. Blóðflæði í heilavef var mælt með ASL (Arterial Spin Labelling) segulómun og blóðflæði til heila með fasakontrast segulómun.
Rannsóknarniðurstöðurnar sem birtar voru í vísindatímariti Evrópsku hjartalækningasamtakana (ESC) sýndu að blóðflæði í heilavef og blóðflæði til heila jókst marktækt í einstaklingum sem fengu hjartaslátt í takt við rafvendingu. Engin marktæk breyting í blóðflæði til heila eða í heilavef mældist hinsvegar hjá þeim fóru ekki í takt við rafvendingu.
MYNDIR: ASL segulómmyndir af öllu úrtaki rannsóknarinnar sýna meðaltal blóðflæðis í heilavef fyrir og eftir rafvendingu. Hópurinn þar sem hjartasláttur fór í takt við rafvendingu bætir við sig blóðflæði. Það er hinsvegar engin breyting í blóðflæði hjá hópnum sem ekki fór í takt við rafvendingu. Línuritið sýnir blóðflæði í gráum vef heila (ASL-GM) og öllum heila (ASL-WB) mælt með ASL segulómun og heildarblóðflæði til heila (TCB-Flow) mælt með fasakontrast segulómun fyrir og eftir rafvendingu í hópnum sem fékk hjartslátt í takt og hópnum sem ekki fékk hjartslátt í takt við rafvendingu.
Sjá nánar á https://academic.oup.com/europace/advance-article/doi/10.1093/europace/euz336/5682445