Nýtt tölvusneiðmyndatæki Myndgreiningar Hjartaverndar.

26. November 2018

Nýjung í myndgreiningu á Íslandi; tvíorku (dual source) tölvusneiðmyndun

Þann 19. október síðastliðinn var nýtt tölvusneiðmyndatæki afhent Myndgreiningu Hjartaverndar. Tækið sem er af gerðinni Siemens Somatom Force er flaggskip Siemens í tölvusneiðmyndun. Það er fyrsta og eina tvíorku tölvusneiðmyndatækið á Íslandi og útbúið tveimur röntgengeislagjöfum (röntgenrörum) í stað eins sem snúast í kringum sjúklinginn. Helsti kostur tvíorkutækja umfram hefðbundnari einorkutæki er möguleikinn á að meta dofnunargildi vefja út frá tveimur mismunandi orkugildum frekar en einu. Þar sem vefir líffæra hafa mismundandi dofnunargildi eftir þéttni þeirra má betur greina samsetningu vefja með tvíorkutækjum.
Þetta tæki er hraðvirkasta tölvusneiðmyndatækið á markaðinum sem kemur sér sérstaklega vel í rannsóknum á hjarta og kransæðum. Hvort rör fyrir sig getur snúist einn hring á aðeins fjórðungi úr sekúndu (250 msek) og hægt er að taka sneiðmyndir á aðeins 66 msek. Tækið er 384 sneiða og getur tekið sneiðmyndir af 737 mm löngu svæði á einni sekúndu sem gerir kleift að mynda bæði kvið og brjóstkassa á einni sekúndu. Það er búið tveimur 120 kW aflgjöfum (samtals 240 kW). Þetta mikla afl getur komið í veg fyrir að lengja þurfi myndatökutíma á t.d hjarta í stórum og þungum einstaklingum til að viðhalda myndgæðum. Aflið gerir einnig mögulegt að taka myndir með lægra spennustigi (kV) sem eykur myndarkontrast (kontrast/myndsuð hlutfall). Hámarks líkamsþyngt fyrir rannsóknarbekk tækisins er 307 kg.
Fyrir utan aukin hraða í myndatökum gera tvö röntgenrör og mikið afl einnig kleift að taka sömu mynd með tveimur orkugildum sem hefur fjölda möguleika í för með sér, m.a. lægri geislaskammta, mun minna skuggaefni, minni myndgalla frá málmígræðslum auk möguleika til greiningar á samsetningu vefs, t.d. aðgreiningu fitusamsettra æðaskella frá hættuminni kalksamsettum æðaskellum.
Þetta öfluga tölvusneiðmyndatæki mun hafa stóru hlutverki að gegna í klínískri myndgreningarþjónustu og vísindarannsóknum á vegum Myndgreiningar Hjartaverndar.