Endurnýjað segulómtæki tekið í notkun.

19. January 2023

Þann 14. desember 2022 var nýtt segulómtæki Myndgreiningar Hjartaverndar tekið í notkun. Um leið og skipt var um tæki var rýmið sem tækið er í endurnýjað.

Þann 14. desember 2022 var nýtt segulómtæki Myndgreiningar Hjartaverndar tekið í notkun. Um leið og skipt var um tæki var rýmið sem tækið er í endurnýjað. Í hönnunarferli var lögð áhersla á að rýmið yrði bjart og fallegt, stuðlaði þannig að vellíðan skjólstæðinga og starfsfólks. Veggir rýmisins eru prýddir stórum landslagsljósmyndum eftir Gyðu Karsldóttur sem er höfundur fjölmargra ljósmynda sem prýða biðstofur og rannsóknarstofur MH. Í lofti er svo stór baklýst ljósmynd af léttskýjuðum himni.

Tækið sem er af gerðinn GE Signa Explorer AIR DL er með 1,5 tesla segli. Um er að ræða sama segul og notaður var með gamla tækinu. Framleiðendur segulómtækja leggja sífellt ríkari áherslu á að bjóða ný tæki þar sem upprunalegir seglar eru notaðir áfram sem er innlegg í umhverfisvernd og endurnýtingu. Allir aðrir hlutar tækisins, sbr. staðsetningaseglar, útvarpsbylgjukerfi, spólur, tölvukerfi og almennt allur rafeindabúnaður og umgjörð er ný. Það sem gerir þetta tæki sérstakt er byltingarkennd nýjung sem felur í sér notkun gervigreindar (Deep Learning AI) til að eyða myndsuði og svokölluðum þjöppunarmyndgöllum (e. Gibbs artefacts) í hrágögnum áður en myndir eru settar saman. Þessi tækni getur hækkað hlutfall myndmerkis og myndsuðs (e. SNR) um allt að 390% sem nýtist til stórbætingar myndgæða og styttingar myndatökutíma. Þetta tæki  og aðstaðan sem því fylgir hefur nú þegar sannað gildi sitt og breytir það miklu fyrir okkar þjónustu með breiðara notkunarsviði, betri myndgæðum og styttri rannsóknartímum.